Fríkassinn í Hveragerði slær í gegn

Hjónin Jóna Sigríður Gunnarsdóttir og Guðmundur Magnús Nielsen, eigendur Rósakaffi í Hveragerði og fólkið á bak við fríkassann. Ljósmynd/Aðsend

Í Hveragerði hefur verið starfræktur svokallaður frískápur hjá Rósakaffi að Breiðumörk 3.

Réttara er þó að tala frekar um fríkassa heldur en skáp, þar sem það hefur ekki enn verið smíðaður skápur utan um starfsemina. Tilgangurinn er þó hinn sami og í hinum hefðbundnu frískápum – það er að nýta nothæfan mat í stað þess að henda honum.

„Við erum með heitan heimilismat í hádeginu á Rósakaffi alla virka daga og okkur fannst agalegt að henda umfram mat nánast eftir hvert hádegi. Okkur datt því í hug að prófa og sjá hvort það væru ekki einhverjir sem vildu nýta sér matinn,“ segir Jóna Sigríður Gunnarsdóttir, annar eigandi Rósakaffis, í samtali við sunnlenska.is.

Nánast hver einasti skammtur farið
„Okkur langaði að setja upp frískáp þar sem allir gætu sett í skápinn það sem ekki nýtist á þeirra heimili og allir gætu tekið úr skápnum það sem þeir vilja nýta. Þar sem við erum ekki sérlega flinkir smiðir og erum almennt frekar upptekin þá höfum við ekki komið því í verk að smíða slíkan skáp.“

Jóna segir að þeim hafi þótt ómögulegt að bíða eftir því að einhver myndi aðstoða þau með að setja upp skáp. „Við ákváðum því bara eftir eitt hádegið í vor að byrja og settum út kassa með mat og köllum hann fríkassann.“

Margir hafa nýtt sér fríkassann í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

„Það kom svo á daginn að það er þörf og mikill áhugi hjá bæjarbúum fyrir frískáp. Alveg frá því að við byrjuðum að gefa umfram máltíðir hefur nánast hver einasti skammtur farið. Við erum yfirleitt að gefa tvö til fimm box á dag en það koma reyndar dagar af og til þar sem maturinn klárast hjá okkur og þá fer ekkert út en það er sjaldan,“ segir Jóna sem rekur Rósakaffi ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Magnúsi Nielsen.

Maturinn sem fer í fríkassann er ekkert slor. Ljósmynd/Aðsend

Héldu Frískápsdag við góðar undirtektir
Jóna segir að þau setji alltaf kassann út á bekk fyrir utan Rósakaffi þegar þau eiga afgang. „Við setjum þá yfirleitt tilkynningu á Facebook-síðuna Frískápurinn í Hveragerði þegar eitthvað er að hafa.“

Á Facebook-síðu Frískápsins í Hveragerði eru settar inn tilkynningar þegar það er kominn kassi út. Ljósmynd/Aðsend

„Við héldum svo frískápsdag um daginn þar sem bæjarbúum gafst kostur að koma með það sem ekki nýtist á þeirra heimili en gæti nýst öðrum og við settum það allt út á bekkina hjá okkur og það fór allt saman.“

„Hveragerðisbær hefur samþykkt að aðstoða við uppsetningu á skýli fyrir frískáp en hann verður staðsettur fyrir utan Verahvergi. Við hlökkum mikið til þegar það verður að veruleika og vonum að það verði sem fyrst.“

Hvetja fleiri fyrirtæki til að taka þátt

Jóna hvetur bæjarbúa til að vera duglega til að nota frískápinn þegar hann kemur upp. „Þannig hjálpumst við að við að sporna við matarsóun og í leiðinni létta undir með hvort öðru. Við viljum ekki síst hvetja önnur fyrirtæki hér í bæ til að taka þátt því það fellur alltaf eitthvað til og mjög líklega er einhver sem getur nýtt sér það. Það er þó mikilvægt að passa upp á að gefa ekki skemmd matvæli og að ganga vel um.“

„Stefnan er að hafa líka pláss fyrir vörur sem þurfa ekki kælingu eða frost eins og þurrvöru og jafnvel hreinlætisvörur, því eins og við vitum öll þá kaupir maður oft eitthvað sem maður heldur að maður muni nota en líkar kannski ekki lyktin eða eitthvað við vöruna en svo getur verið að þetta sé í uppáhaldi hjá einhverjum öðrum sem gæti þá nýtt það í staðinn fyrir að varan endi í ruslinu.“

„Við nýtum mjög gjarnan ísbox og önnur góð box sem hægt er að endurnýta undir matinn og bæjarbúar eru yfirleitt mjög duglegir að koma með box til okkar. Þessa dagana vantar okkur box og værum mjög þakklát fyrir ef einhverjir eiga hjá sér box sem gætu nýst. Það má koma með þau á Rósakaffi og ef það er lokað má skilja þau eftir fyrir utan,“ segir Jóna að lokum.

Jóna segir að þessa dagana vanti þeim fleiri box – gjarnan ísbox – til að setja matinn í. Þau yrðu mjög þakklát ef einhverjir eiga box sem gætu nýst og geta gefið þeim. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinEric Máni kjörinn íþróttamaður Hveragerðis
Næsta greinDaníel bætti 39 ára gamalt héraðsmet