Friðrik ráðinn verkefnastjóri Oddafélagsins

Friðrik Erlingsson. Ljósmynd/Aðsend

Oddafélagið hefur ráðið Friðrik Erlingsson, rithöfund, sem verkefnastjóra félagsins.

Oddafélagið varð 30 ára þann 1. desember á síðasta ári og í tilefni af því var blásið til sóknar á ýmsum sviðum er varða kynningarmál félagsins og aukinn kraftur hefur verið settur í langtímaverkefni félagsins: Oddarannsóknina og framtíðar uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda í nafni Sæmundar Sigfússonar.

Friðrik hefur setið í stjórn Oddafélagsins síðan árið 2017. Hann þekkir vel til verkefna félagsins, hefur skrifað greinar um sögu Oddastaðar og hélt á síðasta sumri vel sóttan fyrirlestur í Hlöðunni á Kvoslæk um „Fingraför Sæmundar fróða.“

Friðrik er menntaður grafískur hönnuður og teiknari og vann lengi við auglýsingar, framleiðslustjórnun, markaðs- og kynningarmál. Friðrik hefur skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga, handrit að teiknimyndum og sjónvarpsþáttum og fengist við þýðingar auk þess að starfa sem tónlistarmaður.

Glæsileg hátíð í undirbúningi
Friðrik hefur þegar hafið störf en fyrstu verkefni hans eru nýtt merki og ný heimasíða fyrir Oddafélagið, auk þess sem hönnun og undirbúningur er hafinn að stórri útisýningu í Odda um Sæmund fróða og sögu Odda, sem Friðrik vinnur með Brynjari Ágústssyni ljósmyndara. Þá mun Friðrik skipuleggja Oddahátíð, sem verður haldin um Þingmaríumessu, eða laugardaginn 3. júlí í sumar. Í undirbúningi er glæsileg hátíð þar sem Sinfóníuhljómsveit Suðurlands mun koma fram í fyrsta sinn á almennum tónleikum ásamt Karlakór Rangæinga, en þar verður m.a. frumflutt nýtt lag við kvæði séra Matthíasar Jochumsonar „Á Gammabrekku.“

Tónleikarnir á Oddhátíð eru til styrktar meginverkefni félagsins, sem er uppbygging nýrrar Oddakirkju og menningar- og fræðasetursins Sæmundarstofu. Kynning verður á Sæmundi fróða og sögu Odda en markmið Oddahátíðar er að hvetja til skilnings á nauðsyn þeirrar uppreisnar sem Odda ber sem menningarstaðar á landsvísu.

Öflug menningarmiðja
Í Sæmundarstofu yrði fjölnotasalur fyrir sýningar, viðburði, móttökur, fyrirlestra, ráðstefnur og einkasamkomur. Þar yrði einnig móttaka, verslun og veitingar fyrir gesti og ferðamenn, íbúð fyrir fræðimenn ásamt bókhlöðu og tölvuveri. Þar færu því saman rannsóknir og fræðimennska annars vegar og hvers kyns viðburðir og menningarstarf hins vegar.

Sæmundarstofa og ný Oddakirkja yrðu þannig öflug menningarmiðja á þessu merkasta höfuðbóli Suðurlands þar sem rúmlega þúsund ára sögu staðarins verði gerð skil, ásamt sögu þeirra karla og kvenna sem staðinn sátu og lögðu sitt af mörkum til sköpunar hinu stórmerka menningarsamfélagi sem þróaðist hér á landi á 12. og 13. öld, sem var gullöld íslenskra bókmennta.

Fyrri greinVellíðan
Næsta greinReynir og Brynja fyrstu íbúar Kambalandsins