Friðrik ver doktorsritgerð sína

Selfyssingurinn Friðrik Larsen, formaður Ímark, ver doktorsriterð sína um markaðssetningu rafmagns í Hátíðarsal Háskóla Íslands á föstudag.

Ritgerðin heitir Positive Power: The Untapped Potential of Branding the Electricity Sector og fer vörnin fram á ensku. Andmælendur Friðriks verða þau Dr. Anne Rindell, dr. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Dr. Nick Lee. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs HÍ, stýrir athöfninni.

Fram kemur í tilkynningu að aðalleiðbeinandi Friðriks við skrifin var dr. Ingjaldur Hannibalsson. Í doktorsnefnd sátu einnig dr. Christian Grönroos og dr. Þórhallur Guðlaugsson.

Í doktorsritgerð Friðriks er skilgreindur fræðilegur grundvöllur fyrir greiningu og skilning á vörumerkjastjórnun á smásölumarkaði fyrir rafmagn. Veitt er innsýn í markað sem hefur hvorki verið markaðs- né viðskiptavinadrifinn í sögulegu samhengi en hefur orðið að bregðast við breyttum aðstæðum. Fræðilegum grundvallarspurningum um vörumerkjastjórnun á rafmagnsmarkaði er svarað, en niðurstöðurnar má jafnframt heimfæra á aðra hrávörumarkaði.

Þá segir í tilkynningunni að hagnýti hluti rannsóknarinnar sé tileinkaður markaði sem ber einkenni einokunar fyrri tíðar og lýtur stífum reglugerðum. Lagður er grundvöllur fyrir stjórnendur til að gera stöðumat svo ákvarða megi hvert skal stefna bæði í stjórnunarlegu tilliti og út frá vörumerkjafræðunum. Um er að ræða grundvallarþætti sem bæði eru almenns eðlis, þ.e. sem eru svipaðir á öllum mörkuðum sem rannsakaðir voru, og þætti sem eru sérstakir fyrir hvern markað.

Friðrik er fæddur á Selfossi 2. maí 1969. Hann hóf starfsferilinn með rekstri eigin fyrirtækis, Brosi auglýsingavörum, en hefur kennt á háskólastigi hér á landi og erlendis frá árinu 2006. Samhliða því hefur hann komið að stofnun og rekstri ýmissa fyrirtækja, setið í stjórnum fyrirtækja og starfað við bæði markaðs- og rekstrarráðgjöf.

vb.is greinir frá þessu