Friðheimar fengu nýsköpunar-verðlaun SAF

Friðheimar í Reykholti í Biskupstungum eru handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2017. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Friðheimum verðlaunin við athöfn á Grand Hótel Reykjavík síðastliðinn fimmtudag.

Í umsögn dómnefndar segir að Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann eigendur Friðheima séu miklir frumkvöðlar á sínu sviði en þau hafa tvinnað saman tómataræktun, ferðaþjónustu og hestamennsku og taka árlega við vel á annað hundrað þúsund ferðamönnum.

„Gestir fá að skyggnast inn í líf og störf heimamanna og eru í raun að heimsækja fjölskyldu og fyrirtæki þeirra. Leitast er við að veita hverjum og einum gesti hlýjar móttökur, fræðslu og einstaka matarupplifun. […] Starfsemi Friðheima er lýsandi dæmi um það hvernig ferðaþjónusta er í sívaxandi mæli að skapa ný tækifæri fyrir hefðbundnar atvinnugreinar um land allt og að greinin er besta tæki til jákvæðrar byggðaþróunar, sem fram hefur komið í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar.

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í fjórtánda sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 25 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.

Fyrri greinFyrsti sigur FSu í vetur
Næsta greinTvö töp á Akureyri