Friðheimar fengu landbúnaðarverðlaunin

Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann í Friðheimum í Biskupstungum voru meðal þeirra sem fengu landbúnaðarverðlaunin 2014 en þau voru afhent í dag við setningu búnaðarþings.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs –og landbúnaðarráðherra, veitti verðlaunin en auk ábúenda á Friðheimum fengu ábúendur í Fossárdal í Berufirði og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn í Reykjavík verðlaun.

Í Friðheimum reka þau Helena og Knútur stórfellda tómatarækt og einnig rækta þau þar gúrkur. Þá hafa þau tvinnað sama ferðaþjónustu og hestamennsku og taka árlega við þúsundum ferðamanna sem sjá hrossasýningar, skoða garðyrkjuframleiðslu og njóta veitinga í gestastofu. Ábúendur í Friðheimum fengu verðlaunin fyrir frumkvöðlastarf og fyrirmyndarbúskap.

Í Fossárdal reka þau Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson sauðfjárbú með á sjötta hundrað vetrarfóðraðar kindur, ferðaþjónustu og skógrækt auk annarra starfa. Fengu þau verðlaunin fyrir fyrirmyndarbúskap í Fossárdal.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn sem opnaði 1990 hefur frá upphafi gert höfuðborgarbúum kleift að sjá flest helstu húsdýr á Íslandi innan borgarmarkanna. Mikil ásókn er í garðinn og á síðasta ári sóttu um 200 þúsund manns hann heim. Fyrir fræðslu- og kynningarstarf hlaut Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn landbúnaðarverðlaunin 2014.