Friðartré gróðursett við Þjórsárskóla

Um síðustu helgi mætti fríður hópur Friðarhlaupsins í Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Heimamenn tóku vel á móti þeim og hópurinn gróðursetti friðartré við Þjórsárskóla.

Friðarhlaupið er alþjóðlegt kyndilboðhlaup og nefnist á frummálinu Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run en það er hlaupið í öllum heimsálfum.

Ísland hefur tekið þátt í hlaupinu frá upphafi. Samhliða hlaupinu í ár fer fram verkefnið „leggjum rækt við frið“ og gengur það út á að sveitarfélög gróðursetji tré sem tileinka skal friði.

Nokkrir íbúar í hreppnum hlupu til móts við Friðarhlaupshópinn og gróðursettur var myndarlegur fjallahlynur úr Þjórsárdal við Þjórsárskóla í lundinum Vinaminni undir stjórn Bolette skólastjóra og Kristófers sveitarstjóra.

Fyrri greinFrjálsíþróttaliðið í góðum gír fyrir landsmótið
Næsta greinEldfljót frá Hellu til Hvolsvallar