Fréttir af veðri

Rafmagn hefur verið að fara af og koma á aftur víða á Suðurlandi og viðbúið er að það ástand vari allavega meðan óveðrið stendur. Farsímasendar á Höfðabrekku og Kirkjubæjarklaustri eru úti vegna rafmagnsleysis.

Kl. 00:22 Mesta veðrið virðist vera að ganga niður víðast á Suðurlandi. Lægðin er enn í fullu fjöri fyrir sunnan land og má búast við miklu hvassviðri síðar í nótt eða í fyrramálið.

Eyjafjöll kl. 22:53: Vísir segir frá því að misskilingur vegna sambandsleysis olli því að talin var þörf á að koma pari á Lambafelli til bjargar. Fólkið er komið í skjól.

Stöðuskýrsla klukkan 22:00 frá Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð: Rafmagn hefur verið að fara af og koma á aftur víða á Suðurlandi og viðbúið er að það ástand vari allavega meðan óveðrið stendur. Bilun varð í Prestbakkalínu sem olli rafmagnsleysi á Kirkjubæjarklaustri. Farsímasendar á Höfðabrekku og Kirkjubæjarklaustri eru úti vegna rafmagnsleysis. Farsímasendar á Hryggjum, Jökulsárlóni, Öndverðarnesi og Vaðöldu eru úti vegna línubilana. Farsímasendar á Þórólfsfelli, Selmýri, Vík, Hraunhóli, Skógum, Rauðuskriðu og Svínadal keyra á varaafli. Í talsímakerfi eru stöðvar á varafli, það eru Brautarholt á Skeiðum, Árnes, Goðaland og Vík.

Eyjafjöll kl. 21:39: Þak er fokið af hóteli við Lambafell undir Eyjafjöllum og er maður í sjálfheldu inni í húsinu. Björgunarsveitarmenn munu líklegast ekki komast að húsinu strax en stefna að því að reyna milli kl. 22 og 23.

Hvolsvöllur kl. 21:08: Þakplötur fjúkandi um allt á Hvolsvelli skv. fréttum RÚV. Meðal annars af Kaupfélagshúsinu. Fjöldi tjónstilkynningar hefur borist á síðustu mínútum en það er fátt sem björgunarsveitarmenn geta gert á meðan ástandið er svona.

Selfoss kl. 21:05: Björgunarfélag Árborgar hefur farið í tvö útköll. Meðal annars voru þakplötur farnar að losna á húsi í Hólahverfi á Selfossi.

Laugarvatn kl. 21:00: Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni er búin að fara í nokkur útköll. Búið er að festa niður gám og staga niður auglýsingaskilti og annað smávægilegt.

Vestur-Skaftafellssýsla kl. 20:46: Bilun virðist vera á Prestbakkalínu 1 milli Prestbakka og Hóla. Eftir að línan var rofin frá Sigöldulínu 4 á Prestbakka var Sigöldulína spennusett og í áframhaldi var unnt að afhenda rafmagn út frá Prestbakka.

Vestur-Skaftafellssýsla kl. 20:31: Sigöldulína 4 og Prestbakkalína 1, milli Sigöldu og Hóla við Hornafjörð, sló út rétt upp úr klukkan átta í kvöld og olli það rafmagnsleysi í Vestur-Skaftafellssýslu út frá Prestbakka. Línan var spennusett aftur en sló fljótlega út á nýjan leik og er ekki vitað á þessari stund hvenær straumur kemst á aftur.

Hvolsvöllur kl. 20:30: Nú eru þakplötur farnar að fjúka á Hvolsvelli. Fólk er beðið að vera alls ekki á ferli þar og halda sig hlé meginn í húsum.

Hvammur kl. 20:29: Vindmælirinn á Hvammi undir Eyjafjöllum er líka fokinn en þar hafði mesta hviða kvöldsins mælst 61 m/sek.

Landeyjahöfn kl. 20:27: Mesti vindur í Landeyjahöfn var kl. 19:30 í kvöld, 32 m/sek og mesta hviðan 50 m/sek.

@birtalif Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Twitter kl. 19:55: Fárviðri (>32,7 m/s) á Stórhöfða, Þverfjalli, Markarfljóti, Surtsey, Ingólfsfjalli osfrv #glórulaust #hurricaneforce #Iceland #Veðurlíf


Steinar kl. 19:41: Ekki verður hægt að mæla vind á Steinum undir Eyjafjöllum frekar þar sem vindmælirinn er fokinn. Kl. 19 var 27 m/sek vindur þar og mesta hviðan 52 m/sek, áður en mælirinn fauk.

Flúðir kl. 19:27: Stjórnstöðin Björgunarfélagsins Eyvindar á Flúðum virkjuð síðdegis fyrir svæðisstjórn. Á þessari stundu er mikið rok og einhver ofankoma á Flúðum. Eyvindur er í viðbragðsstöðu og tilbúinn ef þess þarf eins og allar aðrar sveitir á landinu.

Landsbjörg kl. 19:21: Björgunarsveitir í Árnessýslu hafa sinnt nokkrum aðstoðarbeiðnum en þær hafa ekki verið alvarlegs eðlis.

Landsnet kl. 18:56: Rafmagni sló út á Víkurlínu 1 í Rimakoti í Landeyjum kl. 18:39. Línan var sett inn á ný kl. 18:42.


Vík í Mýrdal kl. 18:50: Samkvæmt Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík þá er rafmagnslaust í Vík í Mýrdal, eins og þessi mynd sýnir glöggt.

Veðurlíf á Facebook kl. 18:35: Nú er lægðin farin að nálgast landið ansi mikið og er meðalvindurinn kominn upp í 42 m/s á Stórhöfða og 33 m/s á Fagurhólsmýri. Hæsta hviðan er 61 m/s á Hvammi undir Eyjafjöllum kl. 18. En kvöldið er ungt og veðrið eftir að skella á meirihluta landsins.


Selfoss kl. 17:44 Björgunarsveitarfólk gírar sig inn í kvöldið og horfir á Into the Storm. Hún fær reyndar bara 5,8 á IMDB.

Fyrri greinHættustigi lýst yfir á Suðurlandi
Næsta greinEsther kvödd eftir áratuga störf