Fréttablaðið vill vita um öll partý síðustu 5 ára

Sunnlensk sveitarfélög eins og reyndar önnur sveitarfélög á landinu fengu fyrir skömmu beiðni frá Fréttablaðinu um upplýsingar um „öll samsæti sem haldin hafa verið með kostnaðarþátttöku frá sveitarfélaginu á tímabilinu 8. október 2008 til 5. júlí 2013“.

Nánar tiltekið er í beiðninni óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum þar sem fram komi „tilefni, tímasetning og vettvangur viðburðar, skrá yfir gesti, yfirlit yfir veitingar og kostnað eftir hverjum lið“. Er ljóst að mörgum sveitarstjórnarmanninum brá í brún við svo umfangsmikla beiðni.

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps lagði í nokkra rannsóknarvinnu á upplýsingarlögum en að sögn Jóns G. Valgeirssonar, sveitarstjóra Hrunamannahrepps, er beiðnin óvenjuleg. Ákveðið var að hafa samráð við önnur sveitarfélög við svarið. Jón sagði að upplýsingar sem óskað væri eftir liggi ekki fyrir.

„Samantekt upplýsinga úr þeim fjölda mála sem um ræðir myndi útheimta mikla vinnu sem skrifstofa sveitarfélagsins getur því miður ekki innt af hendi og er þar af leiðandi ekki hægt að verða við beiðninni,” segir Jón. Það verður því að bíða betri tíma að fá yfirlit yfir öll partý sveitarfélaganna.

Fyrri greinHyggjast stækka íþróttahúsið
Næsta grein10. bekkingar aðstoða í skólanum