Fréttaannáll 2011 – II

Gosið í Grímsvötnum. Ljósmynd/Ólafur Sigurjónsson

Hér eru rifjaðir upp atburðir sem rötuðu í sunnlenskar fréttir í maí, júní, júlí og ágúst 2011.

Maí
Afgreiðslu Sparisjóðsins á Suðurlandi í Sunnumörk í Hveragerði var lokað og í lok maí lauk einnig stuttri sögu umhleðslustöðvar Sorpstöðvar Suðurlands á gámasvæðinu í Sandvíkurhreppi. Rottweilertík sem beit komu í Hveragerði í mars var rænt úr haldi lögreglu. Tíkin er enn ófundin. Ábúendur í Skógum lokuðu fyrir umferð um bæjarhlaðið vegna mikillar umferðar upp á Fimmvörðuháls. Lítilli flugvél hlekktist á í flugtaki á flugvellinum við Hvolsvöll.

Banaslys varð í efnisnámu í Hrunamannahreppi þegar grjóthnullungur féll úr háu stáli á vélgröfu í námunni. Þá varð banaslys í Sundhöll Selfoss þegar drengur á sjötta aldursári drukknaði.

Þann 21. maí hófst mjög öflugt eldgos í Grímsvötnum. Því fylgdi mikið öskufall í nærsveitum. Gosinu var að mestu lokið fjórum dögum seinna en við tók mikið hreinsunarstarf sem gekk vel fyrir sig. Goslokum var lýst yfir 30. maí.
Landvörður var ráðinn í fyrsta sinn í Dyrhólaey en stöðugur ófriður var í eynni fyrstu vikur sumars og meðal annars var landvörðurinn læstur úti.
Júní
Tveir boxerhundar drápu tugi lamba og kinda í Þórðarkoti í Eyrarbakkahreppi og ófriðurinn í Dyrhólaey hélt áfram. Björgunarmiðstöðin á Selfossi komst loksins í gagnið, fimm árum eftir að fyrsta skóflustungan var tekin. Á 17. júní fór Mýrdalsjökull að skjálfa og fylgdust vísindamenn vel með Kötluöskjunni næstu mánuði – en ekkert gerðist.

Páll Óli Ólason sló í gegn á netinu og Hótel Selfoss var rýmt vegna elds. Veiðisumarið fór hægt af stað enda var kalt í maí og júní, svo kalt að hálendisvegir opnuðu seint. Suðurorka tilkynnti áform um virkjun í Skaftárhreppi.

Júlí

Þann 9. júlí varð hlaup í Múlakvísl sem hreif brúna yfir ána með sér. Jarðvísindamenn töldu jafnvel að lítið gos hefði orðið í Kötlu. Brúarsmíði gekk ótrúlega hratt og vel fyrir sig en í millitíðinni fór rúta á hliðina í ánni.

Aðfaranótt 22. júlí varð stórbruni í Hveragerði þar sem ferðamannastaðurinn Eden brann til kaldra kola. Eden brann en fólkið fann sér annan samastað.

Meistaramót Íslands í frjálsum var haldið á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi og þar vann Fjóla Signý Hannesdóttir þrjá Íslandsmeistaratitla.

Ágúst
Banaslys varð í Landsveit þegar stúlka á sjötta aldursári varð undir afturhjóli bifreiðar. Íslandsteppið seldist á eina milljón króna á uppboði á Sumar á Selfossi. Rúta með 22 erlendum ferðamönnum valt í Blautulón og botnlaus gjá opnaðist á miðri íbúðargötu á Selfossi. Einstæð móðir á Selfossi fékk fimmtán milljarða króna reikning frá íslenska ríkinu.

Fyrsti heilsustígurinn var vígður í Hveragerði og Golfklúbburinn Tuddi sigraði í 5. deild í sveitakeppni í golfi og bar af varðandi fágaða framkomu. Knattspyrnufélag Árborgar féll úr 2. deild karla í knattspyrnu en Selfosskonur náðu þeim frábæra árangri að tryggja sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn.

Fréttaannáll janúar – apríl

Fréttaannáll september – desember

TENGDAR FRÉTTIR:
Fyrri greinStrætó frá Reykjavík allt austur á Höfn
Næsta greinDagný kosin Sunnlendingur ársins