Fréttaannáll 2010 – I

Hér eru rifjaðir upp atburðir sem rötuðu í sunnlenskar fréttir í apríl, maí og júní árið 2010.

Apríl
Sunnlenska.is fór í loftið þann 8. apríl og hlaut strax góðar viðtökur. Heimsóknafjöldinn hefur aukist hratt og gerir enn. Kvöldið áður urðu Selfyssingar deildarmeistarar í 1. deild karla í handbolta og voru skiljanlega hamingjusamir. Þann 8. apríl lenti Sandvíkurtjaldurinn en sama dag var lokahluti nýbyggingar HSu formlega opnaður. Við fylgdumst vel með gosinu á Fimmvörðuhálsi og þann 12. apríl virtist því vera að ljúka.

Sunnlenska.is greindi fyrst miðla frá því aðfaranótt 14. apríl að jarðskjálftahrina væri hafin undir Eyjafjallajökli. Þessa nótt var lítið sofið og um kl. 4 töldu menn að gos væri hafið. Greinilegir gosstrókar sáust svo þegar birta tók. Flóðbylgur bárust niður Markarfljót og öskufall var töluvert en mökkinn lagði þó ekki yfir byggð fyrr en daginn eftir. Askan setti strax strik í reikninginn hjá ferðamönnum og fimleikalið Selfoss sat fast í Leifsstöð.

Lið Laugdæla í körfuknattleik varð deildarmeistari í 2. deild karla. Ösku hélt áfram að rigna en dugmiklir sjálfboðaliðar létu hendur standa fram úr ermum og hreinsuðu öskuna eins og hægt var. Knattspyrnumaðurinn Stefán Ragnar Guðlaugsson slapp við öskuna enda staddur í Mónakó. Kettir í Árborg urðu landsfrægir þegar fyrirskipað var að þeir skyldu handsamaðir. Bygging stórhýsis á Hellu stöðvaðist vegna skuldar við verktaka og hefur legið niðri að mestu síðan. Selur sást við Selfoss.

Maí
Eldgosið í Eyjafjallajökli hélt sínu striki með tilheyrandi öskufalli og ófögnuði. Við stórslysi lá í Svínahrauni þar sem ekið var á sjúkrabíl. Nýjir dómarar voru skipaðir við Héraðsdóm Suðurlands og umhverfisráðherra skrópaði á íbúafundi í Flóahreppi. Banaslys varð í vesturhlíðum Ingólfsfjalls þann 10. maí. Selfyssingar hófu leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með tapi gegn Fylki. Sjálfstæðismenn í Ölfusi voru við það að fara á taugum vegna ljósmyndasýningar bæjarstjórans korteri fyrir kosningar. Ingólfur Þórarinsson fékk sín fyrstu tónlistarverðlaun og Bitrufangelsi var tekið í notkun þann 14. maí.

Hápunktur sumarsins hjá knattspyrnumönnum á Selfossi kom full snemma en Selfoss lagði KR á útivelli. Eftir deilur innan kirkjunnar skar biskup úr um það að sr. Óskar H. Óskarsson myndi sjá um daglegt starf í Selfosskirkju. Þann 21. maí hafði stórlega dregið úr eldgosinu og tilkynningum um öskufall fækkaði. Tveimur dögum seinna lá gosið alveg niðri en var þó ekki lokið. Smitandi kvefpest kom upp í hrossum og olli mönnum áhyggjum. Innbrot í sumarbústaði voru tíð á árinu og var um sannkallaðan faraldur að ræða. Sveitarstjórnarkosningar voru 29. maí og þar urðu stærstu tíðindin í Rangárþingi ytra.

Júní
Sláttur hófst snemma í Landeyjunum en það var ekki af góðu komið. Íbúar Þykkvabæjar voru ekki ánægðir þegar þeim var sagt að þeir byggju í sveit. Óróakippir urðu í Eyjafjallajökli 4.-7. júní en eftir það lét fjallið ekki á sér kræla. Á Selfossi var tekist á um siglingaleyfi á Ölfusá og öllum starfsmönnum Ræktunarsambands Flóa og Skeiða var sagt upp. Þann 9. júní eyðilagðist trésmíðaverkstæði Selós á Selfossi í eldsvoða. Litlu munaði að ólögleg valdaskipti færu fram í Árborg. Magni, Móði og Goðahraun voru ný örnefni á Fimmvörðuhálsi.

Franskur kafari drukknaði í Silfru og þann 20. júní hófst Skaftárhlaup. Annað hlaup, nokkuð stærra, kom svo í Skaftá viku síðar. Laxveiðisumarið hófst og byrjaði vel en langvarandi þurrkar komu í veg fyrir metveiði þegar leið á sumarið. Viðburðir sveitarfélaganna yfir sumartímann heppnuðust vel en sýningin Blóm í bæ í Hveragerði dró að langflesta gesti. Veðurblíðan var allsráðandi á Suðurlandi í sumar nema þann eina dag sem Sunnlendingar ætluðu virkilega að hrífa heimsbyggðina.

FRÉTTAANNÁLL II / JÚLÍ-SEPTEMBER
FRÉTTAANNÁLL III / OKTÓBER-DESEMBER

MEST LESNU FRÉTTIRNAR 2010