Frekari framkvæmdir við Austurveginn á Selfossi

Framkvæmdir við gatnamót Austurvegar og Tryggvagötu á Selfossi ganga samkvæmt áætlun og reiknað er með að þeim ljúki á tilsettum tíma.

Nú hefur þó bæst við verkefnið því vegna lélegs ástands lagnakerfis er þörf á frekari endurbótum og styrkingu á vatnsveitulögn og dreifikerfi HS-veitna við veginn.

„Tekin hefur verið ákvörðun um flýta endurnýjun lagna og nýta núverandi lokun til frekari framkvæmda svo ekki þurfi að koma til lokunar síðar. Vatnslagnir og rafveitulagnir verða því endurnýjaðar frá Austurvegi 1-5 að Austurvegi 17.

Grafinn verður um 1,3 m djúpur lagnaskurður í bílastæðum meðfram Austurvegi en gangstéttinni við Austurveg verður ekki raskað og helst núverandi gönguleið því greið,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Kostnaðarhlutdeild vatnsveitu Árborgar í þessari viðbót við verkið er 4,7 milljónir króna en ekki er vitað hvað framkvæmd HS-veitna er í heildina vegna þessarar viðbótar.

Fyrri greinFanndís Huld sýnir í bókasafninu
Næsta greinÓeining um ráðningu sveitarstjóra í Ásahreppi