Frekari eignasala framundan

Ekki er búið að lista upp þær eignir Sveitarfélagsins Árborgar sem kemur til greina að selja en bæjarráð ákvað nýverið að ráðast í sölu eigna til að mæta skuldastöðu sveitarfélagsins.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, verður líklega hægt að bjóða nokkrar eignir til sölu fljótlega á þessu ári.

Nefnir hún sem dæmi gamla leikskólann Ásheima við Austurveg. Þar á eftir að staðfesta nýtt aðalskipulag en lóðinni verður skipt upp og húsið selt en landskikinn sunnan við það undanskilinn.

Þá er horft til þess að selja húsnæði á Stokkseyri sem hýsir smíðakennslu BES en smíðakennslan mun færast í gamla skólahúsið.