Fraus í leiðslum hjá kafaranum

Talið er að frosið hafi í leiðslum hjá kafaranum sem lenti í vandræðum í Silfru í hádeginu í gær.

Þar var nemi í köfun var að kafa með kennara í gjánni en skyndilega fór súrefni að flæða óheft úr öndunarlunga. Kennarinn, sem fylgdist vel með nemanda sínum, kom auka lunga fyrir á nemandanum en sama gerðist þar að súrefni flæddi út.

Þá var gripið til öryggisbúnaðar sem gerði það að verkum að nemandinn skaust upp á yfirborðið af 18 metra dýpi. Talið er að frosið hafi í leiðslum sem varð til þess að súrefni flæddi óhindrað um munnstykkið.

Nemandinn var fluttur til aðhlynningar á slysadeild Landspítala í Fossvogi.

Þetta var eitt af þremur útivistarslysum sem skráð eru í dagbók lögreglunnar á Selfossi í síðustu viku.

Á laugardag lærbrotnaði ung kona er hún féll af vélsleða á Langjökli og í gær ökklabrotnaði kona er hún rann til í blautum jarðvegi, niður bratta brekku í Reykjadal.

Fyrri greinEndurmeta fasteignir á Nesjavöllum
Næsta greinInnbrot í Selvogi og á Laugarvatni