Framúrskarandi sunnlenskum fyrirtækjum fjölgar

Alls eru 33 sunnlensk fyrirtæki í hópi þeirra fyrirtækja sem Creditinfo veitti viðurkenningu í vikunni sem framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2016.

Þetta er talsverð fjölgun frá því í fyrra þegar sautján sunnlensk fyrirtæki stóðust styrkleikamat Creditinfo. Creditinfo hefur greint rekstur íslenskra fyrirtækja síðustu átta ár og birt lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi.

Það sem einkennir fyrirtæki á listanum er að þau sýna stöðugleika í rekstri og eru líkleg til að hafa jákvæð áhrif á efnahag og samfélagið. Fjöldi fyrirtækja á listanum hefur aukist ár frá ári.

Í Þorlákshöfn eru Unun ehf og Manus ehf á listanum ásamt Jarðefnaiðnaði ehf. Eldhestar í Ölfusi eru á listanum og í Hveragerði fengu Kjörís ehf og Þvottahús Grundar og Áss ehf. viðurkenningu.

Í uppsveitum Árnessýslu eru ferðaþjónustufyrirtækin áberandi en þau sem fengu viðurkenningu voru Farfuglaheimilið Laugarvatni ehf, Gullfosskaffi ehf, Hótel Geysir ehf og Geysir Shops ehf. Garðyrkjustöðin Gufuhlíð ehf. í Reykholti, Landstólpi ehf. í Gunnbjarnarholti og verktakafyrirtækið Nesey ehf. í Gnúpverjahreppi fengu einnig viðurkenninguna.

JÁVERK skorar hæst sunnlenskra fyrirtækja
Í Flóahreppi fékk Gerðabúið ehf viðurkenningu og á Selfossi fengu viðurkenningu Baldvin og Þorvaldur ehf., Fossvélar ehf, Set ehf, TRS ehf, Kökugerð HP ehf, Vélsmiðja Suðurlands ehf, Árvirkinn ehf og JÁVERK ehf., en JÁVERK skoraði hæst sunnlenskra fyrirtækja í úttekt Creditinfo og situr í 113. sæti á landsvísu.

Í Rangárþingi ytra voru það Þjótandi ehf á Ægissíðu, G.Sigvaldason ehf í Þykkvabæ, Lambhagabúið ehf og Hallgerður ehf sem rekur Hótel Rangá. Eyrarbúið ehf á Þorvaldseyri fékk sömuleiðis viðurkenningu.

Í V-Skaftafellssýslu eru ferðaþjónustufyrirtækin áberandi á lista. E.Guðmundsson ehf og Undanfari ehf í Vík í Mýrdal og í dreifbýlinu í Mýrdalnum Höfðabrekka ehf og Arcanum ferðaþjónusta ehf. á Ytri-Sólheimum. Bær ehf á Kirkjubæjarklaustri sem rekur Hótel Klaustur fékk viðurkenningu, sem og Systrakaffi ehf. á Klaustri.

Þurfa að uppfylla viss skilyrði
Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára. Enn fremur þurfa félögin að vera í einum að þremur bestu lánshæfisflokkunum skv. lánshæfismati Creditinfo og félögin þurfa að hafa sýnt fram á rekstrarhagnað síðustu þrjú ár. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að hafa verið 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð auk þess sem eignir þurfa að hafa verið 90 milljónir eða meira á síðasta rekstrarári og a.m.k. 80 milljónir árin tvö þar á undan.

Fyrri greinÞórsarar að ná sér á strik
Næsta greinLeitað að Ríkharði á Selfossi