Framtíð héraðsnefnda í óvissu

Framtíð héraðsnefnda er í óvissu vegna breytinga í nýjum sveitarstjórnarlögum sem taka gildi um næstu áramót. Í lögunum er einfaldlega ekki gert ráð fyrir héraðsnefndum.

Það er skoðun Gunnars Þorgeirssonar, oddvita Héraðsnefndar Árnesinga, að finna þurfi nýtt form eða aðferð til að takast á við þau verkefni sem héraðsnefndir hafa haft með höndum.

,,Orðið héraðsnefnd er bara ekki til í nýjum sveitarstjórnarlögum þannig að að það þarf að bregðast við,” sagði Gunnar í samtali við Sunnlenska. Þess má geta að héraðsnefndir tóku við af sýslunefndum á sínum tíma þannig að þetta stjórnsýslustig á sér langa sögu.

Að sögn Gunnars eru þetta alls ekki einfalt mál, og blandast þar saman praktískir hlutir, t.d. eins og lífeyrisskuldbindingar starfsmanna og svo eignir eins og stofngjöf Listasafns Árnesinga, svo að dæmi séu tekin. Ljóst væri þó að sameiginleg verkefni verði áfram til staðar og taldi hann líklegt að einhver byggðasamlög yrðu sett á fót.

Fyrri greinSlapp ómeiddur úr veltu
Næsta greinJólaandinn svífur um í Iðu