Framtíð Sólheima í óvissu

Framkvæmdastjórn og fulltrúaráð Sólheima telur að ef þjónusta við fatlaða færist á hendur sveitarfélaga þá sé grundvöllur fyrir starfi Sólheima brostinn.

Framkvæmdastjórn og fulltrúaráð Sólheima hafa fjallað ítarlega um væntanlegar breytingar á þjónustu við fatlaða vegna flutnings ríkisins á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga.
Stjórnin og fulltrúaráðið telja að verði breytingar þessar að lögum um næstu áramót er brostinn grundvöllur fyrir starfi Sólheima að málefnum fatlaðra nema því aðeins að ríkið tryggi þjónustu Sólheima í búsetu og atvinnumálum með samkomulagi til 2014.

Samkomulagið grundvallist á mati á kostnaði og þjónustuþörf fatlaðra að Sólheimum sem framkvæmt verði af hlutlausum utanaðkomandi aðila og liggi fyrir áður en lögin öðlast gildi.

“Liggi ekki fyrir samkomulag eigi síðar en 1. desember nk. felur fulltrúaráðið framkvæmdastjórn að gera viðeigandi breytingar á rekstri Sólheima og ef nauðsyn krefur undirbúa breytingar á megin starfsemi Sólheima.

Sólheimar fara aðeins fram á að farið sé að gildandi lögum og að búa við sama rekstraröryggi og sveitarfélögin sem er tryggt fjárhagslegt rekstraröryggi við yfirfærsluna en Sólheimum ekki,” segir í tillögu frá framkvæmdastjórn og fulltrúaráði.

Sólheimar voru stofnaðir árið 1930 og eru elsti starfandi þjónustuaðili við fatlað fólk á Íslandi og elsta byggðahverfi í veröldinni sem veitir fötluðum þjónustu. Sólheimar hafa áunnið sér sérstakan sess á alþjóðavettvangi fyrir starf sitt að málefnum fatlaðra og umhverfismálum og jafnan er litið á Sólheima sem elsta “eco-village” í veröldinni en sjálfbær byggðahverfi skipta nú hundruðum og hafa myndað sterka alþjóðlega hreyfingu, Eco village Network.

Í þeim fáu ríkjum, sem flutt hafa þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga, hafa stjórnvöld samtímis tryggt stöðu þessara byggðahverfa.

Þegar flytja átti málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga á Íslandi árið 2001 var í lagafrumvarpinu grein sem tryggði tilveru og starf sjálfseignarstofnana og félaga sem starfað hafa í áratugi að þjónustu við fatlaða. Nú hefur verið horfið frá þessu og engar skýringar gefnar.

Í greinargerð með tillögunni segir að Grímsnes- og Grafningshreppur og félagsþjónusta uppsveita Árnessýslu hafi ítrekað brotið rétt á fötluðum einstaklingum að Sólheimum og neitað að uppfylla lagaskyldur sínar þrátt fyrir að sex stjórnsýsluúrskurðir liggi fyrir um brot þessara aðila. Eðlilegt sé að spyrja sé hvernig þessi sveitarfélög eigi að vera fær um að bera ábyrgð á og annast þjónustu við fatlað fólk.

“Rekstaröryggi Sólheima hefur verið ótryggt, einkum vegna þess að ekki hefur sl. 8 ár fengist mat á þjónustuþörf fatlaðra íbúa að Sólheimum þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum um að slíkt mat eigi að gera árlega. Fjárveitingar til Sólheima hafa verið skertar tvöfalt meira en við aðra þjónustuveitendur sem þjóna fötluðum í búsetu- og atvinnumálum.

Með yfirfærslunni tryggir ríkið sveitarfélögunum fjármagn til þjónustu við fatlaða án þess að veita sjálfstæðum þjónustuaðilum samsvarandi tryggingu, ekki er heldur tryggð nauðsynleg fjölbreyttni í þjónustuúrræðum,” segir í greinargerðinni.