Framsókn vill áheyrnarfulltrúa í bæjarráði

Framsóknarmenn í Árborg vilja að Framsókn og Vinstri grænir fái áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Sætið vilja þeir jafnvel þiggja launalaust.

Fyrsti bæjarstjórnarfundur kjörtímabilsins er kl. 17 í dag. Þar mun Framsóknarflokkurinn flytja tillögu um að þeir flokkar í bæjarstjórn sem ekki eiga fulltrúa í bæjarráði, fá þar áheyrnarfulltrúa með tillögurétt og málfrelsi.

„Í bæjarráði eru tveir fulltrúar frá D-listanum og einn frá S-listanum. Þetta er framkvæmdastjórn sveitarfélagsins og í ljósi yfirlýsinga um samvinnu og samráð myndi það styrkja umræðuna innan stjórnsýslunnar að fá fleiri sjónarmið strax inn í bæjarráð. Annars væri eina aðkoma okkar að málunum mánaðarlegur bæjarstjórarfundur tíu mánuði á ári,“ segir Helgi S. Haraldsson, oddviti B-listans, í samtali við sunnlenska.is.

Helgi segir fordæmi fyrir þessum ráðahag en Vinstri grænir fengu áheyrnarfulltrúa í bæjarráði þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynduðu meirihluta árið 2006.
„Ef það er of dýrt að borga tveimur bæjarfulltrúum laun fyrir bæjarráðsfundi þá viljum við að þeim verði boðin setan án launa,“ segir Helgi.

Fyrri greinGefur útlendingum húslyklana
Næsta greinVinnuslys á Hellisheiði