Framsókn með þrjá menn inni

Framsóknarflokkurinn í Árborg bætir við sig tveimur mönnum og er með þrjá bæjarfulltrúa í skoðanakönnun fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn missir hreinan meirihluta bæjarfulltrúa í Árborg samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Flokkurinn fékk 50,1% atkvæða í kosningunum 2010 og fimm bæjarfulltrúa af níu en mælist nú með 35,1% og fjóra bæjarfulltrúa.

Framsóknarflokkurinn styrkir stöðu sína í lítillega í prósentum en sökum þess hvernig atkvæði dreifast gætu þeir bætt við sig tveimur bæjarfulltúum á þeirri litlu viðbót. Flokkurinn nýtur nú stuðnings 22,7% kjósenda. Alls kusu 19,6% B-listann í síðustu kosningum og endaði hann með einn bæjarfulltrúa kjörinn.

Björt framtíð er með 14,7% fylki í könnuninni og Samfylkingin 14,9% og fengju báðir flokkarnir einn mann kjörinn, en Samfylkingin er með tvo í dag. Afar lítil hreyfing þarf að verða á fylgi Framsóknar, Bjartrar framtíðar eða Samfylkingarinnar til þess að þriðji maður Framsóknar detti út fyrir annan mann BF eða S-listans.

Vinstri græn missa sinn eina bæjarfulltrúa fari kosningar í takt við skoðanakönnun Fréttablaðsins en flokkurinn fengi 7,3% Í könnuninni sögðust 4,9% ætla að kjósa Pírata en flokknum tókst ekki að koma saman lista í Árborg.