Framrás styrkir hringveginn

Þjóðvegur 1 undir Eyjafjöllum. sunnlenska.is/Jóhanna SH.

Framrás ehf í Vík átti lægra tilboðið í styrkingu og klæðningu á tveimur vegarköflum á Þjóðvegi 1 undir austanverðum Eyjafjöllum.

Tilboð Framrásar hljóðaði upp á rúmar 48,8 milljónir króna og var 5,9% yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var 46,1 milljón króna. Borgarverk ehf bauð einnig í verkið, tæpar 63,7 milljónir króna.

Um er að ræða tvo kafla milli Skóga og Dyrhólavegar, sem eru samtals 2,6 kílómetra langir. Verklok eru þann 1. ágúst næstkomandi.