Framrás lægstbjóðandi í tveimur útboðum

Fjaðrárgljúfur. Ljósmynd/UST

Framrás ehf í Vík í Mýrdal átti lægsta tilboðið í tvö verk í V-Skaftafellssýslu sem Vegagerðin bauð út á dögunum.

Raunar var Framrás eini bjóðandinn í endurbyggingu rúmlega 2 km vegakafla Holtsvegar í Skaftárhreppi, frá Hunkubökkum að Fjaðrárgljúfri. Tilboð Framrásar hljóðaði upp á 62,3 milljónir króna og var 5% yfir áætluðum verktakakostnaði sem var 59,3 milljónir króna. Verkinu á að vera lokið þann 1. október næstkomandi.

Þá bauð Framrás lægst í endurmótun 1,3 km Dyrhólavegar um Háey. Tilboð Framrásar hljóðaði upp á 46 milljónir króna og var 22% yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var 37,7 milljónir króna. JG vélar í Reykjavík buðu einnig í þetta verk, 50,5 milljónir króna. Verkinu á að vera lokið þann 15. september næstkomandi.

Fyrri greinSteinn bauð lægst í Suðurhólana
Næsta greinÓskalögin við orgelið