Framrás bauð lægst í varnargarð við Víkurklett

Víkurklettur er til vinstri á myndinni og verður nýi varnargarðurinn út frá honum 595 metra niður í fjöru. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Framrás í Vík átti lægra tilboðið í gerð varnargarðs við Víkurklett og hækkun á þjóðvegi 1 sem vinna á í sumar.

Hermilíkan sem verkfræðistofan Vatnaskil vann sýndi að möguleg flóðbylgja niður Mýrdalssand frá Kötlugosi gæti náð inn í þorpið í Vík og á nýi garðurinn að varna því. Hann verður 2-3 metra hár og jafnframt verður þjóðvegurinn hækkaður á 420 m löngum kafla.

Tilboð heimamanna í Framrás hljóðaði upp á tæpar 44,2 milljónir króna og var 82% af áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var rúmar 53,9 milljónir króna.

Snilldarverk ehf í Ásahreppi bauð einnig í verkið og hljóðaði tilboð félagsins upp á tæplega 49,4 milljónir króna.

Verkinu á að vera að fullu lokið þann 15. september næstkomandi.

Víkurklettur. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson
Fyrri greinEnginn tekinn vegna fíkniefnaaksturs
Næsta greinUngarnir komnir úr eggjunum í Byko