Framrás bauð lægst í Holtsveg

Fjaðrárgljúfur. Ljósmynd/UST

Framrás ehf í Vík átti lægsta tilboðið í endurbyggingu 2 km kafla Holtsvegar í Skaftárhreppi, frá Hunkubökkum að Fjaðrárgljúfri.

Tilboð Framrásar hljóðaði upp á 54,4 milljónir króna og var 76,6% af áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem er 71 milljón króna.

Þrjú önnur tilboð bárust og voru þau einnig undir kostnaðaráætlun. Vörubílstjórafélagið Mjölnir á Selfossi bauð 56,9 milljónir króna, Steypudrangur ehf í Vík 57,7 milljónir og Rósaberg ehf á Höfn 69,4 milljónir króna.

Um er að ræða endurbyggingu á 2 km kafla en vegurinn liggur að (og frá) hinum vinsæla ferðamannastað í Fjaðrárgljúfri. Verkinu á að vera lokið þann 1. ágúst næstkomandi.

Fyrri greinÁ batavegi eftir hestaslys
Næsta greinStærsti Kötluskjálftinn í fjögur ár