Framlenging á samningi um endurhæfingu á Heilsustofnun

Heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

Í gær var undirritaður samningur milli Heilsustofnunar NLFÍ og Sjúkratrygginga Íslands sem framlengir gildandi þjónustusamning aðila um endurhæfingarstarfsemi í Hveragerði, óbreyttan til 30. júní 2023.

Þar sem áherslur í starfsemi stofnunarinnar hafa tekið breytingum frá undirritun upphaflegs samnings árið 2018 eru aðilar sammála um að endurskoða fyrir lok september nk. skiptingu milli meðferðarlína með það að markmiði að fullnýta afkastagetu stofnunarinnar.

Gildandi samningur kveður á um þverfaglega teymisvinnu heilbirgðisstarfsfólks við endurhæfingu 1.350 einstaklinga á ári, sem hver dvelur að jafnaði í 4 vikur. Mikil eftirspurn hefur verið eftir innlögn á Heilsustofnun og því miður er biðlisti eftir þjónustu en mælingar sýna fram á góðan árangur dvalargesta af meðferðinni og mikla ánægju þeirra.

Á Heilsustofnun starfa ríflega 100 starfsmenn og fékk Heilsustofnun í mars sl. verðlaun sem „Stofnun ársins“ í flokki stærstu stofnana í könnun Sameykis. Stjórn og starfsfólk er afar ánægt með þá framlengingu á samningi sem nú hefur verið undirrituð og það öryggi sem hún hefur í för með sér fyrir starfsemina og einstaklinga sem treysta á þjónustu Heilsustofnunar.

Fyrri greinEyþór tekur við kvennaliði Selfoss
Næsta greinFjórða tap Hamars í röð