Framleiða glugga og hurðir á lager

Fyrirtækið Ölfusgluggar hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn frá áramótum en fyrirtækið hefur nú hafið framleiðslu á gluggum og hurðum á lager.

Að sögn eigandans Andrésar Sigurbergssonar hefur markaðurinn verið að breytast og því skapast tækifæri fyrir staðlaða smíði. Lengst af hefur glugga og hurðasmíði byggst á einskonar sérsmíði en að sögn Andrésar hafa þeir verið að fikra sig áfram með staðlaða smíði. Einnig hafa aukin verkefni vegna sumarhúsagerðar bætt verkefnastöðu Ölfusglugga.

Framleiðslan fer fram í Ferjukoti í Ölfsinu í 650 fermetra húsnæði en fyrirtækið var áður í Reykjavík. Það flutti sig í Ölfusið 2008 og var refahúsum að Ferjukoti breytt fyrir trésmiðjuna.

Í verksmiðju Ölfusglugga er í dag sjálfvirkur búnaður sem viðheldur réttu rakastigi jafnt að nóttu sem degi. Að sögn Andrésar hefur það komið vel út að flytja sig út í sveit en nokkrir starfsmenn fluttu með. Aðrir starfsmenn fyrirtækisins koma frá Selfossi og Hveragerði. Alls vinna 9 manns hjá fyrirtækinu.

Fyrri greinLögregla fjarlægði ölvaðan mann
Næsta greinÁkærða gefið tækifæri til að snúa af braut afbrota