Framleiðslugetan gerbreytist með nýju verksmiðjunni

Ný verksmiðja sem framleiðir hágæða íslenskar yleiningar með nýrri íslenskri hönnun á lásum var opnuð við hátíðlega athöfn í límtrésverksmiðjunni á Flúðum í dag.

Það er fyrirtækið Límtré Vírnet sem á og rekur verksmiðjuna en með opnun hennar verða tímamót þar sem framleiðslugeta eykst til muna og valmöguleikar á íslenskum byggingamarkaði aukast verulega.

„Þetta eru íslenskar hágæða þak- og veggeiningar og með nýju verksmiðjunni gerbreytist framleiðslugeta okkar. Kaupendur þurfa ekki lengur að taka þá áhættu sem getur skapast við flutning, eins og þegar einingar eru keyptar erlendis frá og þann kostnað sem það getur haft í för með sér. Límtré Vírnet getur nú framleitt allar þær einingar sem þarf fyrir íslenskan markað,“ segir Guðlaug Kristinsdóttir, stjórnarformaður Límtré Vírnets.

Það var Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, sem vígði formlega verksmiðjuna á Flúðum þegar hann, ásamt Guðlaugu, gangsetti vélarnar að viðstöddu fjölmenni.

Límtré Vírnet hefur um árabil framleitt vandaðar yleiningar en tekur nú nýtt skref.

„Við höfum um nokkurra ára skeið unnið að þróun á einingum sem byggja á nýrri íslenskri hönnun á lásum sem ég tel að séu betri, þéttari og auðveldari í uppsetningu en önnur sambærileg vara. Þessi hönnun býður upp á fjölmarga nýja möguleika og má þannig nefna til viðbótar að nú er í fyrsta sinn hægt að bjóða viðskiptavinum okkar upp á trapisu-þakeiningar úr steinull sem henta vel í iðnaðarhús, en ekki síður íbúðarhús, segir Guðlaug.

Unnið hefur verið að uppsetningu framleiðslulínunnar í nýju 2.700 fermetra húsi Límtré Vírnets, sem er við hlið límtrésverksmiðju fyrirtækisins í Torfdal á Flúðum.

„Staðsetningin er engin tilviljun því starfsmenn okkar frá verksmiðjunni í Reykholti flytjast yfir í þá nýju og þannig viðhöldum við umfangsmikilli þekkingu starfsmanna fyrirtækisins en þeir búa yfir mikilli reynslu á þessu sviði. Þá aukum við ennfremur atvinnuuppbyggingu á svæðinu og eflum Límtré Vírnet sem öflugt framleiðslu- og þjónustufyrirtæki á íslenskum byggingamarkaði með skýra framtíðarsýn, hágæða vöru, skamman afhendingartíma og aukið afhendingaröryggi,“ segir Guðlaug.

Fyrri grein„Aðeins stærra en Shellmótið“
Næsta grein„Styrkur að spila ekki vel en vinna samt“