Í dag starfa um 25 starfsmenn á svæðinu við byggingu nýrrar Ölfusárbrúar og vegagerð í kringum hana, á vegum verktaka auk eftirlits- og mælingamanna.
Framkvæmdir hafa gengið vel í sumar en nú er unnið að fyllingum við undirstöður bráðabirgðabrúar í Efri-Laugardælaeyju. Áætlað er að opna fyrir vinnuumferð yfir brúna í þessari viku.
Aðalverktaki framkvæmdarinnar er ÞG-Verk og hefur hann samið við pólska verksmiðju um framleiðslu stálvirkis Ölfusárbrúar og er efnisútvegun þegar hafin.
Unnið er við jarðvegsskipti í nýja vegstæðinu austan árinnar að fyrirhuguðum mislægum vegamótum við Þjóðveg 1 austan við Selfoss. Verkið gengur vel, fylling er komin vel af stað og vinnu við undirstöður vegbrúarinnar er að ljúka. Þá er uppsláttur á stöplum vegbrúarinnar hafinn.
Vestan við ánna hafa laus jarðefni verið hreinsuð af klöppinni þar sem landstöpull Ölfusárbrúarinnar verður og er vinna við undirstöður stöpulsins hafin. Þá er búið að ljúka sprengingum á klapparhafti sem var í vegstæðinu skammt vestan við ána. Vestan við haftið er unnið við fergingu vegstæðisins yfir Hrísmýri á um 700 metra löngum kafla í átt að hringtorginu við Biskupstungnabraut.
Nánar er hægt að fræðast um stöðu mála á bökkum Ölfusár í nýrri samantekt Vegagerðarinnar.


