Framkvæmdir hafnar við nýtt 450 íbúða hverfi í Þorlákshöfn

(F.v.) Elliði Vignisson bæjarstjóri, Grétar Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfuss, Gísli Steinar Gíslason, framkvæmdarstjóri Hamrakórs, Jón Helgi Sen Erlendsson, hjá Hamrakór og Jóhann Pétur Reyndal, fjármálastjóri Hamrakórs. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdir hófust í dag við uppbyggingu fyrsta áfanga Móabyggðar, nýs 450 íbúða hverfis í Þorlákshöfn, þegar fyrsta skóflastungan var tekin að byggingu fyrstu 78 íbúðanna.

Lætur nærri að hér sé um að ræða stærsta einstaka íbúðaverkefnið á Suðurlandi og mögulega á landinu utan höfuðborgarsvæðisins. Íbúðirnar í hverfinu verða tveggja til fjögurra herbergja á bilinu frá 60 til 95 fm og áætlað er að sala nýrra íbúða geti hafist fljótlega á næsta ári.

Þróunarfélagið Hamrakór ehf. stendur að uppbyggingunni í Móabyggð og hefur félagið þegar samið við byggingafélagið Verkeiningu ehf. um byggingu fyrstu húsanna. Fyrstu 78 íbúðirnar verða í ellefu lágreistum fjölbýlishúsum, þar sem mikil áhersla verður lögð á hlýja og aðlagandi umgjörð með lágstemmdri byggð sem skiptast mun í nokkra kjarna sem tengjast saman með vistgötum.

Tölvugerð mynd af nýja íbúðarhverfinu. Mynd/Hamrakór

Fjölbreyttir íbúðarkostir
„Við hjá Hamrakór erum virkilega ánægð með þennan áfanga sem er afrakstur samstarfs og samninga við Ölfus, samþykkts deiluskipulags og fjármögnunarsamninga við Arion banka. Hér er um mjög metnaðarfulla uppbyggingu að ræða þar sem áhersla er lögð á virðingu fyrir sérstæðri náttúru og því mannlífi sem hér er fyrir. Við höfum trú á því að á næstu árum geti íbúafjöldi Þorlákshafnar auðveldlega tvöfaldast og erum því stolt af þátttöku okkar í verkefninu með bæjarbúum og sveitarfélaginu,“ segir Gísli Steinar Gíslason, framkvæmdarstjóri Hamrakórs.

Munum ráðast í innviðafjárfestingar
Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að Ölfus sé það sveitarfélag á landinu sem vaxi hvað hraðast um þessar mundir. „Eftirspurn eftir húsnæði í Þorlákshöfn hefur verið svo hröð að nú nýlega kom sú staða upp að ekki var eina einustu lóð að fá og engar fasteignir voru til sölu. Hér mælast íbúar þeir ánægðustu á landinu og því eðlilegt að ásóknin sé mikil. Við gleðjumst því mjög yfir samstarfinu við Hamrakór og vonumst til að í því felist enn frekari sóknarfæri. Samhliða uppbyggingunni í Móabyggð munum við ráðast í fjárfestingar í innviðum, m.a. með byggingu nýs leikskóla, stækkun grunnskólans, uppbyggingu í málefnum aldraðra og margt fleira. Það er að okkar mati ein af frumskyldum bæjar- og sveitastjórna að bregðast við húsnæðisskorti enda húsnæði ein af frumþörfum almennings. Við þurfum að bregðast skjótt við og samstarfið við Hamrakór er eitt af þeim púslum sem við þurfum til að geta fullgert myndina,“ segir Elliði.

Tölvugerð mynd af nýja íbúðarhverfinu. Mynd/Hamrakór
Fyrri greinTakmarkanir á heimsóknum á HSU – grímuskylda fyrir 6 ára og eldri
Næsta grein„Erum alveg í skýjunum með þessa viðurkenningu“