Framkvæmdir hafnar hjá Thor landeldi

Frá fyrstu skóflustungunni. Ljósmynd/Aðsend

Í síðustu viku var tekin skóflustunga að seiðaeldisstöð Thor landeldis ehf. og markar þetta upphafið að uppbyggingu á lóð félagsins við Þorlákshöfn. Elliði Vignisson Bæjarstjóri Ölfuss og Þórður Þórðarson lögfræðingur Thor landeldis og einn stofnenda félagsins tóku skóflustunguna.

Fyrsti áfanginn í uppbyggingu félagsins er bygging seiðaeldisstöðvar en í framhaldinu verður byggð áframeldisstöð fyrir 5.000 tonna árlega framleiðslu á laxi en með tíð og tíma stefnir Thor á uppbyggingu laxeldis fyrir allt að 20.000 tonna framleiðslu á ári á landi.

Thor hefur fengið úthlutað 25 ha lóð vestan við Þorlákshöfn undir starfsemina og hentar svæðið einstaklega vel sökum gnægðar af fersku vatni og hreinum sjó sem dælt er úr borholum.

Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss og Þórður Þórðarson lögfræðingur Thor landeldis og einn stofnenda félagsins tóku skóflustunguna. Ljósmynd/Aðsend

Mikil tímamót hjá fyrirtækinu
„Þetta eru mikil tímamót hjá Thor landeldi að hefja framkvæmdir við eldisstöðvar félagsins eftir mikla undirbúningsvinnu, bæði í hönnun og vinnu við leyfismál,“ segir Halldór Ragnar Gíslason framkvæmdastjóri Thor landeldis.

Thor stefnir á að taka við fyrstu hrognum í byrjun næsta árs og að fyrsti áframeldistankurinn verði klár um 12 mánuðum seinna, um áramótin 2025/26. Má síðan gera ráð fyrir að fyrsta slátrun á laxi verði í lok árs 2026.

Seiðastöðin sem á að reisa nú verður um 1.800 fm að stærð og er gert ráð fyrir að 10 manns starfi við hana og að 100 manns starfi hjá félaginu þegar 20.000 tonna framleiðslu verður náð.

Góð seiði undirstaða árangursríks laxeldis
„Þessi eldisstöð er góð viðbót við þá öflugu fiskeldisflóru sem er á svæðinu í kringum Þorlákshöfn og reyndar á öllu Reykjanesi og er þetta svæði nú að verða eitt öflugasta svæði í heiminum fyrir landeldi á laxi sem skapar mikil tækifæri í ýmsum hliðargreinum við laxeldið,“ segir Jónatan Þórðarson eldisstjóri félagsins og Vignir Stefánsson stöðvarstjóri bætir við að stöðin verði byggð eins og best verður á kosið fyrir nútíma laxeldi.

„Það verður einstaklega gaman að fá í hendurnar glænýja seiðastöð enda eru góð seiði undirstaðan fyrir árangursríkt laxeldi. Það er einnig mikill kostur að hafa seiða- og áframeldið nálægt hvort öðru en það verður hægt að dæla seiðum beint úr seiðaeldisstöðinni í áframeldistankana með tilheyrandi kostnaðar- og vinnusparnaði,“ segir Vignir.

Fyrri greinInga Sól framlengir
Næsta greinMeirihluti bæjarstjórnar Árborgar á alvarlegum villigötum