Framkvæmdir við Suðurlandsveg hefjast fljótlega

Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfu Háfells ehf. um að samningagerð vegna framkvæmda við tvöföldun Suðurlandsvegar verði stöðvuð.

Vegagerðin gerir því ráð fyrir að hefja á ný viðræður við Ingileif Jónsson ehf sem átti fjórða lægsta tilboð í verkið. Samningagerðin mun hafa verið langt komin þegar Háfell kærði hana.

Því er nú gert ráð fyrir að hægt verði að ganga frá samningum á næstu dögum og að framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar frá Litlu kaffistofunni að Lögbergsbrekku hefjist mjög fljótlega í kjölfarið.

Tilboð í verkið voru opnuð þann 20. apríl og bárust 15 tilboð. Það lægsta stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar en það næstlægsta gerði það og því hófust samningaviðræður við Vélaleigu AÞ. Það kærði Háfell og kærunefndin samþykkti í því tilviki að stöðva samningsgerðina og úrskurðaði svo að lokum að orðalag í útboðsgögnum varðandi fjárhagslegt mat á stærð verka sem fyrirtækið hafði unnið síðustu 3 ár væri ekki nógu skýrt og því væri ekki heimilt að ganga til samninga við fyrirtækið. Fram kom í greinargerð með úrskurðinum að tilboð Háfells væri ekki heldur gilt.

Vegagerðin óskaði því eftir frekari gögnum frá þeim sem áttu fjórða, fimmta og sjötta lægsta tilboðið. Ingileifur Jónsson ehf. átti það fjórða lægsta og stóðst kröfur og því var hafist handa við að semja við hann um verkið. Það kærði Háfell en kærunefndin hefur nú hafnað því að stöðva samningsgerðina.

Fyrri greinTveggja ára stúlka brenndist við Strokk
Næsta greinFyrsta útkallið á nýjum björgunarbát