Framkvæmdum í höfninni frestað

Búið er að fresta breytingum á höfninni í Þorlákshöfn sem ráðast átti í um þessar mundir, en búnaður frá Björgun bilaði með þeim afleiðingum að framkvæmdirnar dragast fram á vorið.

Meðal þess sem breyta átti í höfninni var að fjarlægja hluta af gömlu L-laga bryggjunni, dýpka hluta hafnarinnar og ráðast í ýmsar umbætur á hafnargarðinum.

Til verksins voru fengin flutningsskipið Pétur mikli og prammi með gröfu frá Björgun, en ekki fór betur en svo að aðal snúningslegan á prammanum sem grafan er á bilaði, og voru tækin flutt til Njarðvíkur í slipp yfir vetrarmánuðina.