Framkvæmdir við varnargarða kynntar

Til stendur að ljúka sem fyrst viðgerð á varnargarði Markarfljóts við Þórólfsfell og jafnframt gera nákvæmar mælingar á Markarfljóti vegna hönnunar á nýjum görðum.

Vegagerðin og Landgræðslan kynntu fyrirhugaðar framkvæmdir við varnargarða Markarfljóts á íbúafundi í Hvolnum á Hvolsvelli fyrir helgi. Skemmdir urðu á varnargörðum í flóðunum sem urðu af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli. Það var einkum garðurinn við Þórólfsfell í Fljótshlíð sem skemmdist og á fundinum voru kynntar tillögur stofnanana um legu garðsins.

Fundurinn var vel sóttur og létu landeigendur beggja vegna Markarfljóts í ljós skoðanir sínar á hvað gera þurfi til að hemja Fljótið og fok frá aurum þess.

Samstaða var á fundinum um að ljúka sem fyrst viðgerð á Þórólfsfellsgarðinum og jafnframt gera nákvæmar hæðarmælingar á farvegi fljótsins vegna hönnunar á nauðsynlegum varnargörðum í innanverðri Fljótshlíð.