Framkvæmdir við Hamarshöllina komnar á fullt

Framkvæmdir við byggingu Hamarshallarinnar í Hveragerði eru nú komnar í fullan gang.

Trésmiðja Sæmundar ehf. í Þorlákshöfn sér um uppsteypu á undirstöðum og gólfum ásamt öðrum frágangi við höllina.

Gólfefnin í höllina, gervigras og boltagólf hafa nú þegar verið boðin út og er lægstbjóðandi fyrirtækið Sport-Tæki ehf, sem staðsett er í Hveragerði. Áætlað er að allri uppsteypu og lagningu gervigrass ljúki í maí nk.

Yfirbyggingin sem er tvöfaldur loftborinn dúkur, verður svo væntanlega blásin upp í júlí nk. Gert er ráð fyrir að höllin verði fullfrágengin með boltagólfi, aðstöðuhúsi og öðrum frágangi í september nk.

Samhliða byggingu hallarinnar verður lagður malbikaður göngustígur frá Laufskógum að íþróttasvæðinu norðan Hamars.