Framkvæmdir við grunnskólann, gatnakerfið og fleira

Fjárfesting Hveragerðisbæjar í framkvæmdum í ár mun nema 156,6 milljónum króna. Ber þar hæst viðbyggingu við grunnskólann sem hýsa mun mötuneyti og kaup á húsnæði í Mjólkurbúinu svokallaða.

Ennfremur verður ráðist í lagfæringar á lóð Skólasels með gerð gangstíga, endurnýjun girðinga og uppsetningu leiktækja.

Þetta kemur fram í fréttapósti Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, til íbúa.

Hafist hefur verið handa við endurbætur á húsi Sundlaugarinnar í Laugaskarði en það er fyrsta skref í endurbótum á lauginni sem fyrirhugaðar eru á næstu árum. Þar verða ennfremur gerðar breytingar í anddyri og sett upp lyfta til að auðvelda aðgengi á milli hæða. Settur verður upp skiptiveggur í íþróttahúsið við Skólamörk en með því verður hægt að fjölga tímum í húsinu.

Gatnakerfi bæjarins kemur illa undan erfiðum vetri eins og víðast hvar er raunin og því er nauðsynlegt að setja fjármuni til viðhalds núverandi gatna. Einnig á að leggja bundið slitlag á veginn inn að gönguleiðinni inn í Reykjadal og verður það gríðarleg bót fyrir vegfarendur sem um dalinn fara. Í dalnum verður einnig útbúið tjaldsvæði sem til að byrja með verður með bráðabirgðaaðstöðu á meðan að reynsla fæst á staðsetninguna. Einnig verða á árinu lagfærðir eldri gangstígar og nýir lagðir á tveimur stöðum, í þeim framkvæmdum mun Drullusundið fá langþráða andlitslyftingu en það er þekktur göngustígur yfir Hveragarðinn í miðbænum eins og flestir vita.

Fyrri greinSelfyssingar upp í 2. sætið
Næsta greinStefán ráðinn þjálfari Selfoss