Framkvæmdir í Árborg fyrir hálfan milljarð á árinu

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 hinn 12. desember sl. ásamt áætlun fyrir árin 2014-2016. Hluti af fjárhagsáætlun er áætlun um fjárfestingar og framkvæmdir í sveitarfélaginu.

Alls er í áætluninni gert ráð fyrir framkvæmdum fyrir 507,8 milljónir króna. Ríflega helmingur þess fjár rennur til eflingar veitukerfa, en önnur verkefni eru af ýmsum toga, stór og smá. Undirbúningur framkvæmda er þegar hafinn, en misjafnt er hvenær ársins verður ráðist í þau.

Hér fyrir neðan má sjá helstu framkvæmdir sem ráðist verður í á árinu 2013:

Gatna- og stígagerð
Unnið verður að endurnýjun eldri göngustíga í sveitarfélaginu, auk þess sem haldið verður áfram lagningu göngustígs á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og göngustígur meðfram Ölfusá lagður að Björgunarmiðstöðinni. Þá verður framhaldið endurbótum á gangstétt á Eyrarbakka. Gangstétt við Birkivelli verður lagfærð og lokið við gatnagerð við Sólvelli á Stokkseyri og að flugskýlalóðum á Selfossflugvelli.

Endurbætur á fasteignum
Haldið verður áfram undirbúningi að viðbyggingu við Sundhöll Selfoss sem mun hýsa búningsklefa og afgreiðslu. Skipt verður um þak á Grænumörk 3 og á íþróttahúsinu á Stokkseyri. Bílskúr í Vinaminni, dagdvöl fyrir heilabilaða, verður innréttaður og bætir það mjög aðstöðuna sem sú starfsemi hefur. Smíðakennsla á Stokkseyri verður flutt úr núverandi húsnæði inn í gamla skólahúsið og aðalanddyri skólans á Eyrarbakka lagfært. Þá stendur til að halda áfram endurbótum á Sandvíkurskóla, auk þess sem lyftu verði komið fyrir í íþróttahúsinu við Vallaskóla. Bætt verður úr merkingum á fasteignum sveitarfélagsins.

Veitur
Áætlað er að verja talsverðum fjármunum í viðgerðir á fráveitu vegna jarðskjálftaskemmda. Þá verður einnig haldið áfram undirbúningi að gerð hreinsistöðvar til hreinsunar á frárennsli. Haldið verður áfram vinnu við vatnsöflun fyrir vatnsveitu og endurnýjun á lögnum. Selfossveitur munu halda áfram vinnu við heitavatnsöflun og er gert ráð fyrir að um 150 milljónum króna verði varið til vatnsöflunar. Einnig er ráðgert að stækka dreifikerfi hitaveitu í dreifbýli og virkja borholu sem gerð var á síðasta ári.

Framkvæmdir á íþróttavöllum og skólalóðum
Áfram verður haldið framkvæmdum á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg, þar sem lokið verður við frágang búningsklefa og annarrar aðstöðu í stúkunni, jafnframt verður haldið áfram yfirborðsfrágangi. Unnið verður að lagfæringum á lóð Vallaskóla og skólalóðinni á Eyrarbakka, auk þess sem leikskólalóðir í sveitarfélaginu verða lagfærðar.

Annað
Sett verður upp biðskýli fyrir farþega strætó við Austurveg. Útbúið verður hundasleppisvæði í nágrenni við gámasvæðið í Víkurheiði. Áfram verður haldið uppbyggingu tjaldsvæðanna á Eyrarbakka og Stokkseyri og Þuríðarbúð á Stokkseyri lagfærð.

Fyrri greinStefán Ragnar æfir með Hönefoss
Næsta greinSjúkraflutningamenn læra að verja sig