Framkvæmdir hefjast í næsta mánuði

„Við vonumst til að geta hafist handa fljótlega í næsta mánuði, segir Ásbjörn Björgvinsson, framkvæmdastjóri Lava setursins, sem byggja á upp á Hvolsvelli. Verkefnið er risavaxið, en byggingin mun hýsa eldfjallamiðstöð með sýningarsölum, stóra ferðamannaverslun á alls um 350 fermetrum og veitingastað fyrir 200 manns.

Ætlað er að fjöldi fólks fái starf í setrinu og það verði mikil ferðamiðstöð fyrir svæðið. Búið er að fjármagna verkið að fullu, en verkefnið kostar vel á annan milljarð króna. Stórir fjárfestar standa að baki verkefninu, svo sem framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund, en einnig koma við sögu Norðurflug, Eimskipafélag Íslands og Kynnisferðir.

Ásbjörn segir heimamenn taka vel í byggingu setursins en haldinn var stór kynningarfundur nýverið á Hvolsvelli. „Það er búið að vera mikill góður hugur heimamanna til þessa verkefnis alveg frá upphafi og það sýndi sig líka á fundinum,” segir Ásbjörn.

Að hans sögn er áætlað að reisa húsið undir haust og loka því fyrir veturinn. Vetrarmánuðirnir yrðu svo notaðir í að innrétta húsnæðið.

Stefnt er að því að eldfjallasetrið verði allsherjar fræðslu- og upplifunarmiðstöð þar sem náttúra Íslands er í forgrunni með sérstaka áherslu á jarðfræði og jarðsöguna.