Framkvæmdir aftur stopp

Í annað sinn í sumar hafa starfsmenn Selhúsa lagt niður störf í tengibyggingu Suðurlandsvegar 1-3 á Hellu.

Eignarhaldsfélag hússins, sem er í eigu Rangárþings ytra og Verkalýðshússins, skuldar verktökum ríflega 40 milljónir króna.

Indriði Indriðason, stjórnarformaður Suðurlandsvegar 1 -3 ehf., segir að fyrir tveimur vikum hafi félagið samið við Selhús um verkstopp. Hann reiknar með að framkvæmdir fari aftur af stað í september, þegar búið sé að tryggja frekara fjármagn. Til þess að klára fyrsta áfanga hússins þarf félagið um 60 til 80 milljónir króna, áætlar Indriði.

Upphaflega stóð til að fyrsta hæð hússins yrði tekin í notkun 1. júní síðastliðinn.