Framkvæmdaleyfið afturkallað

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt að afturkalla framkvæmdaleyfi fyrir nýtt vegstæði að Fimmvörðuhálsi.

Hafði sveitarstjórn og héraðsnefnd gefið leyfi til framkvæmdanna undir lok síðasta árs og notaðist þá við nokkuð umdeilt skipulag frá árinu 2005. Ýmsir annmarkar voru taldir á þessari leið upp á Skógaheiðina og samkvæmt heimildum Sunnlenska talið ólíklegt að Skipulagsstofnun hefði samþykkt hana þar sem hún fæli í sér talsverða umhverfisröskun.

Leigutakar og ábúendur í Ytri-Skógum hafa lokað fyrir umferð um gamla veginn upp að Fimmvörðuhálsi eins og Sunnlenska hefur greint frá áður. Ferðaþjónustuaðilar þrýsta verulega á sveitarstjórnaryfirvöld að fá að aka upp á hálsinn enda eftirsótt svæði fyrir ferðamenn að komast nærri gossvæðinu.

Í bígerð er að hefja á ný skipulagsvinnu í Skógum sem felur m.a. í sér að finna nýtt vegstæði sem allir, þar á meðal ábúendur jarðarinnar, sumarbústaðareigendur og skipulagsyfirvöld geta sætt sig við.