Framhaldsskólanemendur fá frítt í sund

Rangárþing eystra hefur ákveðið að koma til móts við framhaldsskólanemendur sem eru í verkfalli þessa dagana og bjóða þeim meðal annars frítt í sund.

Nemendunum í framhaldsskóla býðst að koma milli kl: 08:00 – 12:00 í Fjarfundarstofuna í Hvolsskóla föstudaginn 28. og mánudaginn 31. mars og læra. Um tilraunaverkefni er að ræða og verður þessu framhaldið ef áhugi nemenda er fyrir því.

Einnig fá framhaldsskólanemendur frítt í sund gegn framvísun skólaskírteinis milli kl: 08:00 – 14:00 alla virka daga meðan á verkfallinu stendur.

Að auki verður Ungmennahús félagsmiðstöðvarinnar opnað föstudaginn 28. mars kl. 20:00 – 23:00. Ungmennahúsið er starfrækt í húsnæði félagsmiðstöðvarinnar Tvisturinnn og er fyrir aldurinn 16+ (árgangur 1997 og eldri). Þar geta ungmenni komið saman og stytt sér stundir undir umsjón Þrastar Sigfússonar, forstöðumanns félagsmiðstöðvarinnar. Einnig verður opið miðvikudaginn 2. apríl kl. 20:00 og svo einn föstudag og einn miðvikudag í mánuði í samráði við ungmennin sem hlut eiga að máli.

Fyrri greinSkaftárhreppur kaupir hluta Kirkjubæjarklausturs
Næsta greinSilja Dögg: Langþráð réttlæti fyrir heimilin