Frambjóðendur kynna sig á Selfossi

Frambjóðendur í formannskjöri Samfylkingarinnar kynna sig og svara spurningum á Selfossi á laugardaginn. Frambjóðendur munu ræða leiðina í átt að heilbrigðara Íslandi.

Frambjóðendurnir eru:
Guðmundur Ari Sigurjónsson, æskulýðsfulltrúi og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Scram, ráðgjafi og varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar.

Fundurinn fer fram kl. 11 í sal Samfylkingarinnar í Árborg á Eyravegi 15 og er opinn öllum. Áhugasamir eru hvattir til að mæta og verður þeim boðið upp á kaffi og áhugaverðar umræður.

Fyrr um morguninn fer fram aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Hann hefst kl. 10 og þangað eru félagsmenn velkomnir.

Í formannskosningunni sem er allsherjaratkvæðagreiðsla allra félagsmanna verður stuðst við STV-uppgjörsaðferð (e. Single Transferable Vote). Kjósandi greiðir þá atkvæði með því að raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Kosning hefst 28. maí og lýkur 3. júní þegar landsfundur Samfylkingarinnar hefst.