Fræðsla á vinnustað skilar sér til heimilanna

(F.v.) Garðar, Pétur og Björn við undirritun samstarfssamningsins í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á fundi í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi í dag var skrifað undir samstarf um auknar eldvarnir og innleiðingu eldvarnaeftirlits á Suðurlandi.

Það voru þeir Björn Karlson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins og Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, sem skrifuðu undir samstarfssamninginn.

Markmiðið er að efla eldvarnir í stofnunum sveitarfélaga á starfssvæði Brunavarna Árnessýslu og á heimilum starfsfólks. Samskonar samstarf hefur verið í fjölmörgum sveitarfélögum víða um land með góðum árangri.

„Það var ákveðið að byrja verkefnið í öllum grunnskólum í sýslunni og því voru skólastjórnendur boðaðir á fundinn til að kynna verkefnið fyrir þeim. Það gengur út á að hver skóli tilnefnir eldvarnafulltrúa til að gera mánaðarlegar eldvarnaskoðanir í húsnæði skólans. Að auki mun starfsfólk skólans fá fræðslu um eldvarnir,“ sagði Pétur Pétursson í samtali við sunnlenska.is og bætti við að reynslan af þessu verkefni annars staðar sýni að slík fræðsla skili sér ekki einungis í bættum eldvörnum á vinnustaðnum heldur einnig á heimilum.

„Við hjá Brunavörnum Árnessýslu hlökkum til frekara samstarfs við stjórnendur grunnskóla í sýslunni og vonum að þetta verkefni verði til góðs fyrir samfélagið í heild sinni,“ bætti Pétur við.


Fulltrúar tryggingafélaganna og grunnskólanna á Suðurlandi voru meðal þeirra sem voru viðstaddir undirritunina í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinFræðslusamstarf ferðaþjónustuaðila
Næsta greinErna framlengir við Selfoss