Frábærar niðurstöður í ytra mati skólans

Á vordögum var framkvæmt ytra mat á starfi Grunnskólans í Hveragerði. Matið unnu matsmenn á vegum Námsmatsstofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Tilgangur matsins er að afla upplýsinga um skólastarf, árangur þess og þróun fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, foreldra og nemendur. Matið er til að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla.

Til að sjá hvernig nám nemenda er og hversu vel skólinn stendur að því var aflað fjölbreyttra gagna. Stuðst var við ýmis gögn um skólastarfið, talað var við hópa nemenda, foreldra, kennara, annars starfsfólks, stjórnendur og skólaráð. Vettvangsathuganir voru í kennslustundum og lögð voru fyrir lesskilningspróf í flestum árgöngum. Niðurstöður matsins eru settar fram í fjórum köflum sem fjalla um stjórnun, nám og kennslu, innra mat og lestur.

Stjórnun
Í matinu segir að greinilegt sé að stjórnendur skólans stuðli að samhljómi meðal allra um góðan og jákvæðan skólabrag. Gagnkvæm virðing og væntumþykja endurspeglast í starfi starfsfólks, nemenda og foreldra. Samstarf er gott við foreldra og nærumhverfi. Starfsmenn eru hvattir til að efla sig í starfi í samræmi við stefnu skólans. Skólanámskrá og starfsáætlun eru vel fram sett og öllum hagsmunaaðilum skólans aðgengilegar. Boðleiðir eru stuttar og vel er tekið á vandamálum svo sem einelti.

Nám og kennsla
Nemendur voru almennt áhugasamir um nám sitt og starf í skólanum og virkir í kennslustundum. Jákvæðni og góð samskipti einkenndu kennslustundir og gagnkvæm virðing kom fram hjá nemendum og kennurum. Kennarar hafa almennt góða fagþekkingu á þeim námssviðum sem þeir kenna. Kennslustundir voru vel skipulagðar og tíminn vel nýttur. Vel er fylgst með námi og árangri nemenda og hugað að þörfum nemenda með sérþarfir.

Nemendur hafa möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri og eru á því að við skólann ríki lýðræðisleg vinnubrögð. Matið segir að morgunandakt sé til fyrirmyndar þar sem umsjónarkennari er með nemendum fyrstu 20 mínútur á hverjum degi. Bekkjarfundir eru vikulega og regluleg nemendasamtöl fara fram þar sem rætt er um nám og líðan.

Matsskýrslan verður send skólanum og bæjarstjórn þar sem fram koma nánari niðurstöður ytra matsins. Skýrslan verður aðgengileg á heimasíðu ráðuneytis og Námsmatsstofnunar. Skólinn og bæjaryfirvöld setja í framhaldi matsins fram áætlun um þær umbætur sem lagðar eru til og ráðuneyti fylgist síðan með að þeim sé framfylgt.

Segja má að matið sé glæsileg viðurkenning til handa Guðjóni Sigurðssyni, skólastjóra, og hans fólki en Guðjón hefur verið skólastjóri við skólann í 25 ár og lætur af störfum þann 1. ágúst næstkomandi.

Fyrri greinÖlvisholt Brugghús kom, sá og sigraði
Næsta greinKríuvarpið ekki svipur hjá sjón