Frábær viðbrögð við fallegri verslun

Gallerý Chósý á Selfossi flutti nýverið að Eyravegi 2, á jarðhæð í Hótel Selfossi. Ásta Valdimarsdóttir, blómaskreytir, förðunarfræðingur og handverkshönnuður rekur gallerýið og selur þar meðal annars sína hönnun, og vörur frá öðrum hönnuðum.

„Ég byrjaði í bílskúrnum heima fyrir tveimur og hálfu ári síðan og var þar í tvö ár. Það gekk svo vel að við Christine Gísladóttir ákváðum að fara í samstarf og opnuðum vinnustofu og litla búð í Gagnheiðinni og það gekk bara mjög vel og við vorum ekkert á förum þaðan,“ segir Ásta þegar hún er spurð að því hvernig það kom til að hún flutti verslunina á Eyraveginn.

„En svo losnaði þetta pláss í Hótelinu og eftir smá umhugsun þá ákvað ég að taka slaginn. Við Christine breytum samstarfi okkar þannig að ég fer hérna ein inn og sé um búðina en verð með vörur frá okkur báðum,“ segir Ásta sem var búin að opna tveimur dögum eftir að hún fékk húsnæðið afhent. „Já, það gerðist mjög hratt, það var bara sett í rallýgírinn og klárað,“ segir Ásta brosandi.

Ull og blúndur ólík efni
Gallerý Chósý leggur aðaláherslu á íslenska hönnun og strax á fyrstu dögum verslunarinnar segist Ásta hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð, ekki síst frá gestum Hótel Selfoss, sem á þessum árstíma eru flestir erlendir ferðamenn.

„Ég er búin að vinna mikið með ull og blúndur, er bæði með slár, kjóla, trefla, kraga og fleira auk þess að hanna yfirhafnir og klúta úr öðrum efnum. Ull og blúndur eru ólík efni en þetta kemur vel út og flíkurnar eru kvenlegar,“ segir Ásta og bætir við að hún selji einnig vörur frá fleiri hönnuðum.

„Ég verð auðvitað með púðana hennar Christine og síðan eru hérna samfellur og fleiri barnavörur frá Jónsdóttir & Co. Svo verð ég með vandaðar lopapeysur frá vinkonu minni og síðan munu fleiri hönnuðir bætast við á næstunni,“ segir Ásta sem einnig selur hönnunartímarit og dönsk tímarit sem hún flytur inn sjálf. „Útaf staðsetningunni þá verður maður að vera með eitthvað líka fyrir túristann þannig að það á eftir að bætast meira hérna inn af ýmiskonar sérvalinni gjafavöru sem mér finnst falleg og passar hérna inn.“

Ásta segist spennt fyrir framtíðinni á nýja staðnum. „Traffíkin er mikil hérna í húsinu, maður er hérna á frábæru horni í miðbænum. Þetta er ólíkt versluninni í Gagnheiðinni, Þar stíluðum við meira inn á vinnustofuna og vorum með litla búð en þetta er meiri verslun og aukinn opnunartími þó að ég verði áfram með vinnustofuna mína hérna á bakvið.“

Fyrri greinSækja örmagna Spánverja
Næsta greinFriðartré í bæjargarðinum á Selfossi