Frábær stemmning á sælkerakvöldi

Hinn heimsþekkti sælkerakokkur Nicolas Vahé heimsótti veitingastaðinn Hendur í höfn í Þorlákshöfn í vikunni. Viðburðurinn var vel sóttur en Vahé kynnti vörur sínar og leyfði gestum að smakka.

„Kvöldið var alveg yndislegt og mjög skemmtilegt. Það voru forréttindi að fá þennan snilling í heimsókn og mikil viðurkenning fyrir mig,“ sagði Dagný Magnúsdóttir í Hendur í höfn í samtali við sunnlenska.is.

Vahé hefur getið sér gott orð fyrir sína einstöku hæfileika sem kokkur en hann útskrifaðist aðeins 18 ára gamall og hefur starfað á mörgum af þekktustu veitingahúsum í Danmörku og Frakklandi. Þar hefur hannhaft það að leiðarljósi að notast við hráefni úr nánasta umhverfi og færa hefðbundnar uppskriftir í nútímalegri útfærslur.

Árið 2007 hóf hann framleiðslu á lífstílstengdri matvöru þar sem hann leggur mikla áherslu á gæði og gott bragð. Dagný segir að það sem geri vörur Vahé sérstakar er að þær er án aukaefna og samsettar úr svo skemmtilega ólíkum og spennandi hráefnum.

„Vörurnar hans eru án allra aukaefna og framleiddar úr spennandi hráefni. Ég hef notað vörurnar hans mikið,“ segir Dagný sem hóf einnig að selja vörur Vahé í sumar. „Ég nota þær að mestu í mína matargerð því þetta eru hráefni sem ekki fást í íslenskri matvælaframleiðslu.“

Fyrri greinFyrsta tap Þórsara í deildinni
Næsta greinLeikskólabörn fengu gjafir