Frábær byrjun í Brúará

Stangveiðitímabilið 2013 hófst í gær, þann 1. apríl, og eru þeir veiðimenn sem sunnlenska.is hefur heyrt í hæstánægðir með byrjunina.

Alls komu 25 bleikjur á land í Brúará fyrir landi Spóastaða og auk þess vænn sjóbirtingur sem ekki sést í ánni á hverjum degi. Bleikjurnar voru allt upp í fjögur pund.

Vignir Arnarson, stórveiðimaður í Þorlákshöfn, hefur opnað Brúará við Spóastaði um árabil og segir hann að þetta sé besta opnunin í ánni í mörg ár.

“Þetta var frábær dagur og besta opnun í manna minnum. Bleikjan var óvenju vel haldin, feit og fín og síðan tók ég fimm punda sjóbirting við brúnna sem er mjög sjaldgæft,” sagði Vignir í samtali við sunnlenska.is en hann þakkar veðurfarinu undanfarnar vikur fyrir þessa góðu byrjun.

“Veðrið er búið að vera frábært, febrúar var hlýr og góður og það hefur sitt að segja.”

Þá bárust góðar fréttir austan úr Tungufljóti í Skaftártungu og Tungulæk í Landbroti þar sem veiðimenn mokuðu upp sjóbirtingi í gær.

Fyrri greinTvö slys í Grímsnesinu um páskana
Næsta greinSkemmdarvargar skrúfuðu frá brunaslöngu