Frá fræi til nytjaskógar á fullveldistíma

Skógardagur verður haldinn í Laugarvatnsskógi á morgun, 11. maí kl. 11:30, tileinkaður 100 ára fullveldi Íslendinga.

Í Laugarvatnsskógi hefur Skógræktin ásamt heimafólki, skólum á staðnum og fleirum starfað að skógarfriðun og skógrækt allan fullveldistímann og því er þessi staður valinn til hátíðarhalda í tilefni fullveldisafmælisins. Svæðið hefur breyst úr berangri með lágvöxnu kjarri í blómlega skóga.

Á skógardeginum verða gróðursett 100 úrvalstré í nýjan Fullveldislund og nýtt bálhús með snyrtingum tekið formlega í notkun. Bálhúsið er nær eingöngu byggt úr íslenskum viði af trjám sem uxu upp á Suðurlandi á fullveldistímanum.

Verkefnið er samstarfsverkefni Skógræktarinnar, Bláskógabyggðar og skóla í sveitarfélaginu. Nemendur skólanna á Laugarvatni og í Reykholti taka þátt í viðburðinum með kórsöng ofl. ásamt heimafólki. Flutt verða skemmtiatriði úr heimabyggð, veitt fræðsla um skóga og skógrækt og efnt til skógargöngu.

Fyrri greinUndirskriftahlutfall endaði í 32,4% og 32,6%
Næsta greinFrábær árangur Helluskóla í Skólahreysti