Fræðslusetur opnað í Gunnarsholti

Í gær var Sagnagarður, fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslunnar, opnaður við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti, að viðstöddu miklu fjölmenni.

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, opnaði Sagnagarð og séra Axel Árnason blessaði húsið. Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir hönnuður sagði frá uppbyggingu sýningarinnar og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri fylgdi sýningunni úr hlaði.

Þórður Tómasson safnstjóri í Skógum var sérstakur heiðursgestur, en hann varð níræður í gær. Gestum var boðið upp á veitingar, þar á meðal heimabakað brauð úr íslensku melfræi.

Markmiðið með Sagnagarði er að fræða fólk um gróðurvernd og endurheimt landgæða á Íslandi. Saga landgræðslu er sýnd í máli og myndum og fróðleg og lifandi fræðsla er þar um gróðursögu, landeyðingu og endurheimt landgæða á Íslandi. Hönnuðir sýningarinnar eru hjónin Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir og Jón Ásgeir Hreinsson.

Sagnagarður verður opinn virka daga, 1. júní – 15. september kl. 9 – 16 og skv. nánara samkomulagi. Opið hús verður í Sagnagarði fyrir sveitunga Landgræðslunnar 19. maí nk.

Fyrri greinÞórður Tómasson níræður
Næsta greinStórslysaæfing á HSu