Fótboltagolf er fyrir alla

„Ég hef verið að veltast með þessa hug­mynd í svolítinn tíma og gert nokkrar tilraunir í gegnum tíðina,“ segir Svein­björn Jón Ásgrímsson, sem nýlega opnaði 18 holu fótboltagolfvöll í Þorláks­höfn.

„Ég fór til Danmerkur í fyrra og spilaði þetta þar. Við það efldist ég og fór að leita að svæði fyrir svona völl.“

Fótboltagolf er eins og nafnið gefur til kynna blanda af golfi og fótbolta. „Þetta virkar eins og golf. Það eru teig­ar, brautir og holur,“ segir Sveinbjörn, en við hverja holu eru skilti sem á eru lengd brautarinnar og reglur. Á hverri braut eru svo hrindranir sem flækja hana. „Lengsta brautin um 100 metrar, en það er hluti gamallar flugbrautar sem var þarna áður. Stysta brautin er um 35 metrar,“ segir Sveinbjörn.

Hann segist ekki vita til þess að annar 18 holu fótboltagolfvöllur sé til á Íslandi. „Það hafa verið gerðir vell­ir fyrir yngri flokka, en þeir hafa verið fimm til sex holu,“ segir Sveinbjörn sem segir að þetta sé fyrir alla. „Ég var með um tvítuga krakka hjá mér um dag­inn. Sumir þeirra höfðu ekkert spilað fótbolta og þetta var ekkert mál fyrir þau,“ segir Sveinbjörn, en völlur­inn er opinn alla daga. „Fólk getur farið í íþróttamiðstöðina í Þor­láks­höfn til að fá skorkort og þess háttar.“