FOSS eykur þjónustu við félagsmenn

PACTA lögmenn og FOSS, Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi, hafa gert með sér samning um aukna þjónustu lögmanna PACTA við félagið og félagsmenn þess.

Samningurinn kveður á um afsláttarkjör félagsmanna FOSS á lögfræðiþjónustu og jafnframt fá félagsmenn fyrsta viðtalið sér að kostnaðarlausu.

Þjónustan einskorðast ekki við vinnutengd málefni heldur er einnig hægt að leita úrlausnar og ráðgjafar um öll lögfræðileg atriði þar með talið forsjár- og skilnaðarmál, erfðamál, slysamál og fasteignamál.

Lögmenn PACTA, þau Jónína Guðmundsdóttir hdl. og Jón Páll Hilmarsson hdl. verða með fasta viðtalstíma á skrifstofu FOSS að Austurvegi 36 á Selfossi annan hvern þriðjudag milli kl. 9:30-11:30. Fyrsti viðtalstíminn verður þriðjudaginn 8. september næstkomandi.

Félagar í FOSS eru hvattir til þess að koma við á skrifstofu FOSS þann 8. september næstkomandi og kynna sér þjónustuna sem er í boði en félagsmenn geta einnig pantað tíma á skrifstofu PACTA á Selfossi.

Fyrri greinÆgir áfram á hættusvæði
Næsta greinMyndaveisla: Frábær stemmning á þjóðarleikvanginum