Forvarnarstarf leggst af

Samstarfs- og aðgerðahópur um forvarnir í Árborg mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði hjá HSu og lögreglunni á Selfossi sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi ársins 2011.

Í yfirlýsingu frá hópnum kemur fram að verulega sé vegið að öryggi íbúa á svæðinu sem og þeim tugum þúsunda ferðamanna og sumarbústaðargesta sem ferðast í umdæmum þessara stofnanna.

“Hjúkrunarfræðingar og lögreglumenn hafa komið reglulega að forvarnarfræðslu í Sveitarfélaginu Árborg með góðum árangri og eiga m.a. fulltrúa í þessum samstarfs- og aðgerðahópi. Ef boðaður niðurskurður verður að veruleika er fyrirsjáanlegt að þessar stofnanir geti ekki sinnt þessum málum líkt og undanfarin ár. Ef það mikilvæga forvarnarstarf leggst af sem framangreindar stofnanir hafa sinnt, gæti það leitt til aukins kostnaðar fyrir samfélagið sem yrði á endanum meiri en lagt er til að skorinn verði niður,” segir í yfirlýsingunni.

Undir hana rita fulltrúar Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar, leik- og grunnskóla, lögreglu, HSu, Skólaskrifstofu Suðurlands, íþróttafélaga og FSu í samstarfs- og aðgerðahópi um forvarnir í Árborg.