Forval hjá Vinstri grænum á Suðurlandi

Kjördæmisráð Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi ákvað á fundi sínum í kvöld að efna til forvals fyrir Alþingiskosningarnar í september á næsta ári.

Efnt var til atkvæðagreiðslu um málið og var mikill meirihluti fundarmanna fylgjandi þeirri leið að hafa forval en ekki uppstillingu á framboðslistann. Nú þegar hafa nokkrir lýst vilja sínum til að skipa efstu sæti listans.

Núverandi þingmaður VG í Suðurkjördæmi, Ari Trausti Guðmundsson, gefur ekki kost á sér til endurkjörs, en hann stýrði fundi kjördæmisráðs í kvöld. Kosin var kjörstjórn á fundinum sem hittist á fyrsta fundi í næstu viku og skiptir með sér verkum, en hana skipa fulltrúar tilnefndir af formönnum svæðisfélaga VG í kjördæminu.

Ákveðið var að formaður kjördæmisráðsins, Valgeir Bjarnason, myndi starfa með kjörstjórn.

Fyrri greinGæsahúðarflutningur hjá Miðtúnssystrum
Næsta greinEva Lind framlengir samning við Selfoss